<$BlogRSDUrl$>

fimmtudagur, júlí 31, 2003

Ég hef verið að hugsa um hversu órökrétt sumt sem maður gerir í þessu lífi er. Þegar ég kláraði mastersnám í uppeldisfræðum og fékk starf sem framhaldsskólakennari var ég alsæll. Mér hafði tekist það sem ég ætlaði mér. Svo gerðist það að ég varð ástfanginn, og það vildi svo til að hún er frá Mexíkó. Hún flutti til Íslands og bjó þar með mér í nokkur ár, en fann ekki starf sem hæfði hennar menntun. Hún hefur tvær Mastersgráður frá góðum og virtum háskólum, en fékk starf við að þrífa eftir og sjá um geðfatlaða. Hún gerði sitt besta í þrjú ár. Svo gafst hún upp og vildi fara til Mexíkó. Þá höfðum við eignast dóttur og vorum gift. Hún fór og ég fylgdi henni eftir. Ætlunin var að prufa Mexíkó í fjögur ár og sjá hvort við fyndum okkur ekki betur þar. Ekki vildi betur til en svo að ég hef alls ekki fundið sjálfan mig í Mexíkó. Þó að ég starfi sem framhaldsskólakennari hérna og reki minn eigin skóla, þá hefur mér ekki tekist að uppgötva hvernig hægt er að njóta lífsins í Mexíkó. Í fyrsta lagi, þá er lítil virðing borin fyrir kennurum hérna, og launin eru a.m.k. fimm sinnum lægri en á Íslandi. Það eina sem ég nýt virkilega að gera hérna er þegar ég kemst á skákmót. Við taflborðið líður mér eins og ég sé heima hjá mér. Einnig þegar ég fer í bíó. Þá gæti ég alveg eins verið í Bíóhöllinni í Mjódd, eða Stjörnubíói á Laugarveginum eða Regnboganum á Hverfisgötu.

En pælum aðeins í þessu. Ég var búinn að finna allt sem ég þráði, starf sem ég elskaði og möguleika til að vaxa í þessu starfi, ásamt því að halda áfram ritstörfum á íslensku. En vegna ástarinnar, þessarar undarlegu ástar, var ég dreginn yfir Atlantshafið, hef þurft að berjast fyrir atvinnuréttindum, enda er útlendingaeftirlitið í Mexíkó frekar erfitt viðureignar, þurft að læra nýtt tungumál, upplifað hluti sem ég hefði aldrei ímyndað mér á Íslandi. Hef gerst djarfur skorkvikindaeyðir: drepið allt frá litlum rauðum bitmaurum í fjölda sporðdreka og jafnvel eina Tarantúlu-könguló. Ég hef kennt í skólastofum þar sem viftur eru í loftinu, og hvert einasta pappírssnifsi fýkur um ef ekki er bók oná bleðlinum. Hef fundið hvernig það er að svitna í þessum hita, og orðið fyrir því að flestar okkar eigur eyðilögðust í Fellibyl, og þurftum að flytja í framhaldi af því frá Merida í Yucatan til Puebla de los Angeles.

Þetta er frekar skrýtið líf. Af hverju ætli ég hafi ákveðið endanlega að flytja? Vildi ég kynnast heiminum frá nýjum sjónarhornum? Var þetta forvitni heimspekingsins? Var þetta bara ást? Ekki einu sinni ég veit svarið við þessum spurningum, eða kannski veit ég svörin, en er einfaldlega ekki tilbúinn til að svara þeim með orðum.

Hvers vegna, þegar ég mæti miklu mótlæti, berst ég áfram í stað þess að skipta algjörlega um stöðu. Hvern einasta dag, hverja einustu mínútu, þrái ég að vera á Íslandi, tala íslensku, hugsa á íslensku, vera með fjölskyldu minni. En þráin til að vera með börnum mínum virðist vera enn sterkari. Ég hef þessa þörf til að tryggja að allt sé í lagi með þau, að vera viss um að þau muni lifa góðu lífi. Ætli hver einasta mínúta í lífi mínu sé einfaldlega fórn?

Í skák þykir mér ekkert fegurra en fórnir, og sjálfsagt á það við um lífið sjálft líka. Þegar menn hugsa ekki einungis um eigið rassgat, heldur um gildi sem eru æðri en mannslífið og eigin þægindi, þá gerist eitthvað undarlegt sem erfitt er að útskýra.

Kannski ég muni taka upp á því að hugsa á þessu blessaða bloggi, upphátt. Það er sjálfsagt betra en að skrifa um bíómyndir sem ég hef séð.
Í gær sá ég tvær myndir á DVD. Sú fyrri var Punch Drunk Love með Adam Sandler. Þetta er ansi súr mynd, og ansi góð. Hún var bara ansi fljótt búin. Ég átti von á miklu lengri mynd. Jæja. Ég mæli með henni, enda er hún vel leikstýrð og sagan nokkuð góð.

Síðan sá ég One Hour Photo með Robin Williams. Hún kom mér á óvart og þá sérstaklega leikur Williams. Karakterinn hans er nánast algjörlega húmorslaus, nema þá ef litið er á myndina í heild, þegar henni er lokið. Húmorinn er nefnilega til staðar, en hann er nokkuð myrkur. Góð mynd.

miðvikudagur, júlí 30, 2003

Ég er ekki sá allra duglegasti við bloggið. Systir mín skammaði mig duglega áðan fyrir að skrifa ekki neitt. Jæja, þá verð ég að skrifa um það merkilegasta í þessu fátæklega lífi mínu hina síðustu daga.

Eftir að hafa klárað lestur og gagnrýni um 60 bóka, tók ég mér eins dags frí. Eftir það kláraði ég kúrs til að fá pappír um að ég hafi full kennsluréttindi í Mexíkó. Nú hef ég klárað þann kúrs og pappírinn kominn í hús. Eftir það hef ég setið við undirbúning á kúrsum sem ég mun kenna á næstu önn. Ég mun kenna heimspeki, ensku (með bókmenntafræðilegu ívafi), tölvunarfræði, og hagfræðilega og pólitíska landafræði. Það verður spennandi að sjá hvernig mér tekst til með þessi fög. Ég fæ til allrar hamingju að kenna allt á ensku.

Svo er af skákskólanum mínum að frétta að ég er kominn með 3 nemendur eftir jafnmargar vikur. Það þýðir að skólinn er þegar byrjaður að skila hagnaði. Ég hef skrifað æfingar fyrir strákana sem eru í kúrsinum; mjög auðveldar til að byrja með og svo þyngjast þær. Það er gaman að þessu.

Það skemmtilegasta sem ég hef gert nýverið með börnunum mínum, er að við fórum á sýningu á safn sem heitir Imaginaria. Það er svona vísindasafn, þar sem börn fá að snerta allt saman. Til dæmis lögðust þau á naglarúm, toguðu í kaðal sem var jafnlangur innyfla manna, sáu beinagrind af steypireið og héldu að þar færi risaeðla, og margt fleira. Mjög skemmtilegt safn. Svo fór fjölskyldan öll að sjá Nemo, teiknimyndina um fiskinn sem týndist. Var hún hin mesta skemmtun.

Ég fer mikið í bíó, enda hef með endæmum gaman af kvikmyndasukli. Í gær sá ég Terminator 3: uppreisn vélanna. Þetta var hin besta skemmtun og þótti mér hún betri en T2. Hún var bæði í anda fyrstu og annarrar myndarinnar, og mjög vel leikin. Ég hef alltaf verið hrifnastur af fyrstu myndinni, og fannst tæknibrellurnar frábærar í mynd 2, en mér finnst að í mynd 3 hafi þeim tekist að blanda mjög vel saman öllu því besta við fyrstu og aðra myndina. Handritið var líka skemmtilega skrifað, og virtist vera frekar lúmsk gagnrýni á hernað almennt og ríkisstjórn Bandaríkjanna. Pabbi hefði gaman af þessari. Mæli með henni.

Um daginn sá ég svo Charlie's Angels: Full Throttle, og kom hún bara skemmtilega á óvart. Engin alvara þar, en samt fín skemmtun. Sagan var létt og tók sig hæfilega alvarlega. Mikið af vel útfærðum sprengingum og látum. Algjörlega innihaldslaus della en fín með poppkorni. Ekki fyrir þá sem vilja eitthvað meira en bull.

Svo hef ég líka séð eina mjög góða með Colin Farrell, hvað heitir hún aftur? Á spænsku er hún þýdd sem "Enclace mortal" eða "Dauðasamband", sem er nokkuð góð þýðing finnst mér, en á ensku heitir hún "Phone Booth" eða "Símaklefi". Þessi mynd er mjög spennandi og skemmtilega leikin. Mæli með henni.

Kannski ég ætti að blogga eftir hverja bíóferð og mynd sem ég sé á DVD?

Síðustu helgi fór ég á skákmót. Fyrsta umferð byrjaði klukkan 9 að föstudagsmorgni í borginni Oaxaca, sem er um 5 klst. akstur frá Puebla de los Angeles, þar sem ég bý. Ég var svo vitlaus að ég hélt að ferðin tæki 3 klst. í rútu, og fór því kl. 22.00 og ætlaði að taka mér rútu, vera kominn á staðinn kl. 1 og sofa í hótelrúmi nóttina fyrir mótið. En allt klikkaði. Það var ekki hægt að panta miða með rútunni gegnum síma, þannig að ég fór á staðinn, en þá var uppselt í tíurútuna, og aðeins til einhverjir 30 miðar í rútu sem lagði af stað á miðnætti. Þetta var Volvorúta en sætin voru samt fáránlega lítil og hausinn minn stóð upp úr endanum á stólbakinu, og manneskjan í sætinu fyrir framan hallaði sætinu sínu aftur svo að hné mín voru í kremju, þannig að vonlaust var fyrir mig að sofa í ferðinni. Þannig að ég las nokkra kafla í "Eye of the World" sem ég hef í vasatölvunni minni (Pocket PC).

Þegar á leiðarenda var komið var klukkan orðin fimm, og vonlaust að fá hótelherbergi á þeim tíma. Þannig að minn settist bara niður á rútustöðinni og las fleiri kafla í bókinni. Um kl. 8 fann ég mér svo hótel og fór á mótið kl. 9. Ég var útkeyrður. Til að gera stutta sögu enn styttri þá tapaði ég í fyrstu umferð fyrir dana sem heitir Jesper Nörgaard. Mjög viðkunnalegur náungi, sem eins og ég, er staddur í Mexíkó af því að hann giftist mexíkóskri konu. En hann er góður skákmaður og dómgreind mín var ekki í lagi vegna svefnleysis, og ég tapaði örugglega. Þessi skák tók frekar langan tíma, og ekki var nema um klst. milli umferða, þannig að ég gat ekkert hvílt mig fyrir næstu umferð sem byrjaði kl. 16:00. Ég tapaði þeirri skák örugglega, enda barðist ég meira við að halda augunum opnum en að rannsaka stöðuna. Eftir þessa skák fór ég ýkt fúll á hótelherbergið, lagðist upp í rúm og steinsofnaði. Ég vaknaði mjög sprækur, og til að gera enn styttri sögu miklu styttri, þá vann ég rest í mótinu, en það dugði mér ekki í verðlaunasæti. Fyrstu verðlaun voru um kr. 100.000. Ég lenti í 6.-11. sæti og var þar umkringdur alþjóðlegum meisturum. Ég hækka á stigum fyrir árangurinn í mótinu og tókst að planta mér sæmilega sem einn af sterkari skákmönnum sem búa í Mexíkó. Að minnsta kosti get ég fullyrt að ég er sterkasti íslenski skákmaðurinn í Mexíkó!

Þetta ætti að vera nóg í bili.

mánudagur, júlí 14, 2003

Kominn tími til að slíta sér frá tölvunni og setjast við lestur vísindaskáldsagna á spænsku!!!

Hvern hefði dreymt um að ég færi að gagnrýna bækur á spænsku, fyrir nokkrum árum síðan? Ég sem kunni ekki einu sinni að segja "yo". Jó!
Ég vil bara sjá hvort að þetta virki alveg rétt. Það er allt og sumt. Svo þarf ég að setjast niður og lesa um 30 bækur fyrir morgundaginn. Púff.
Í dag vaknði ég. Alveg satt. Ég lýg því ekki. Svo sofnaði ég aftur. Svo vaknaði ég. Þannig hélt morguninn áfram þar til ég vaknaði. Þegar ég var vaknaður fattaði ég að ég var orðinn of seinn. Börnin þurfa að fara í leikskóla, skiluru? Og ég þarf að keyra þau, fattaru?

Eftir að börnin voru komin á leikskólann fór ég að taka á móti fyrsta nemandanum í skákskólanum mínumm. Ég held mér hafi tekist að gera þetta spennandi fyrir strákinn. Og svo er hún systir mí­n eitthvað að bögga mig með að byrja að blögga. Sjáum hvort að þetta hafi tekist.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Weblog Commenting by HaloScan.com