<$BlogRSDUrl$>

fimmtudagur, febrúar 26, 2004


Merkileg mynd, með ævafornri tölvu. Einu sinni var þetta herbergið mitt. :(


Ég er ekki frá því að þarna sé Gerður Hrönn í Þyrnirósarbúningi.


Halla Björk. Það er alltof langt síðan við hittumst síðast. Þá vorum við að stúdera skák saman.


Mjög gaman að sjá ánægjuna skína úr augum pabba míns.


Þessi mynd sýnir alúð eins og hún á að vera.


Greinilegt að Halla Björk er stolt af systur sinni.


Afinn og amman ástfangin á ný!


Falleg mynd og bros.


Systurnar þrjár með afa sínum. Frábær mynd!


Nýfædd Ragnarsdóttir enn og aftur. Maður fær einfaldlega aldrei nóg.


Mæðgurnar saman.


Hamingjan skín úr augum Beggu. Nú vantar bara mynd af pabbanum líka.

HVAR ER RAGGI?
GLATAÐ BROS

Þú birtist bakvið spegil
og brostir til mín
því brosi sem ég gaf þér forðum
með saklausum brennandi orðum

Nú opna ég augun
og horfi á vegg



Hér er mynd af litlu frænku Ragnarsdóttur :)

miðvikudagur, febrúar 25, 2004

GLATAÐ BROS

Þú birtist bakvið spegil
og brostir til mín
því brosi sem ég gaf þér forðum
með saklausum brennandi orðum

Nú opna ég augun
og horfi á vegg

Bróðir minn eignaðist dóttur í dag og vil ég óska Ragga, Beggu, Höllu Björk og Gerði Hrönn innilega til hamingju með viðbótina, og svo auðvitað pabba og mömmu til hamingju með nýja barnabarnið, Önnu Brynju, sjálfum mér og mínum börnum til hamingju með frænkuna!




sunnudagur, febrúar 22, 2004

MILLI SVEFNS OG VÖKU

Neisti glampar og varir í myrkrinu þó að hann sé horfinn. Niður fossanna eflist og rúmin fljóta að barminum. Örvar þjóta gegnum hjörtu sem blómstra eins og túlipanar og rósir.

Allir þessir litir!

Þarna sveifla stelpur regnboga og sippa yfir hann. Óli prik teiknar stráka á gangstétt. Götur setjast inn í bíla og skoppa áfram yfir manneskjur í rúmum. Allt flýtur að enda alheimsins, vegg með rauðum hnappi. Karlar með kúluhatta hoppa á dýnum og þykjast vera Hulk.

Loksins er allt eins og það á að vera.

laugardagur, febrúar 21, 2004

AF FARFUGLI

Langur svanur svífur yfir haf
sorfna brimbrjóta
og hjarðir jökla

Sest svangur á myrka lind
svipstundu eina úr draumi
sveinn klettanna hlær

Svanurinn slær vængjum
á speglaðan mána
og tekur sig hægt á loft.

föstudagur, febrúar 20, 2004

VEIÐIDAGAR

(nóvember 1992 – febrúar 2004)


Skoti er hleypt af
það hittir í mark
hindin liggur
spyrnir í loftið
enn með lífi
sem fjarar hægt út
í forarsvaði.

Um hana safnast grímur
sem brosa og gráta
yfir þeim glóa
blaðþunnar axir
þær búta hana sundur
höggva á taugar
lífs og dauða.

Blóðugar krumlur
krepptar í græðgi
rífa upp hjartað
hnýta við staur
og kveikja í
grípa flöskustút
fylla sig
og míga yfir bálið.

Blind skynjar hindin
að hún þráir logann
og að ástin er sár.

fimmtudagur, febrúar 19, 2004

VETRARNÓTT

(október 1992 – febrúar 2004)

Vindhviða skekur
fáklædda
skjálfandi
hríslu

Vinir fjúka frá
faðmlögum
skjálfandi
þurrir

Veifar stjörnum föl
umvafin
skjálfandi
laufum

miðvikudagur, febrúar 18, 2004

NÓTTIN

(október 1992 – febrúar 2004)

Það var svo kalt
þú baðst mig
kúrðu hjá mér, ekki fara

við sváfum saman undir sæng
úti svifu snjókorn
sængin og þú voruð hlý
lyktin af þér var mjúk

nóttin sveif til jarðar
huldi jörðina
eins og snjór
þar til sólin skreið frammúr


þriðjudagur, febrúar 17, 2004

Haldiði ekki að 101 Reykjavík hafi verið í sjónvarpinu áðan hérna í Mexíkó, með spænskum texta og öllum græjum. Það besta við myndina var að heyra íslensku aftur eftir alltof langan tíma, og sjá aðeins Reykjavík og íslenskt umhverfi. Fyrir utan það er þessi mynd tómt drasl, fyrir utan atriðið á jöklinum. Ekki beinlínis jákvæð mynd af land minni og þjóð sem maður fær sent í gegnum sjónvarpið hérna. ;)
Veit ekki hvort að þetta "shout out" kerfi sé farið að virka.
MORÐTILRAUN

(október 1992 – febrúar 2004)

Nóttin er skrefi
á eftir. Seilist í dag
en grípur gnauð vinds.

DVD myndirnar sem Anna Brynja keypti sér...

1. Saving Private Ryan ****
2. The Wedding Singer ***
3. Seven ***1/2
4. Monty Python : The Life of Brian ****
5. Dirty Dancing ***
6. Vanilla Sky **1/2 (endurgerð betri myndar sem gerð var á Spáni og heitir "Abre Tus Ojos" eða "Open Your Eyes".
7. Taxi - hef ekki séð þessa en skilst að hún sé framleidd, en ekki leikstýrð af Luc Besson.
8. La Bamba ***
9. Help, I´m a fish (hef ekki séð hana)

Hvað kostuðu diskarnir?

mánudagur, febrúar 16, 2004

ÁSTIN HÖNDLUÐ

(október 1992)


Hún streymir milli steina
brýst út
í læk einn langan

sem liggur að ungu hjarta
sem lútir við lágan bakka

og sötrar úr lófa glitrandi tár

ÍSVATN

(október 1992)

Allt í kring
hlátrar
umvafnir þykkum reyk

Ég lyfti glasi
að vörum

Snertingin kveikir neista
hinna vængjuðu drauma

sunnudagur, febrúar 15, 2004

Stundum velti ég því fyrir mér hvort að nokkur lesi þessi ljóð sem ég er að setja inn. Ef svo er, væri gaman að fá viðbrögð. Ég held að ljóðformið sé besta leiðin fyrir mig til að finnast ég vera ennþá til á Íslandi. Það er svo langt síðan ég var síðast á klakanum, eða þrjú ár síðan.

Annars er lítið af mér að frétta. Vinnan erfið, nemendur haga sér illa, en skólastjórinn talaði við mig í dag og lýsti yfir mikilli ánægju með mín störf. Nemendur hafa kvartað yfir gífurlega ströngum aga í skólastofunni hjá mér, þar sem að ég krefst þess að þeir læri í stað þess að eyða tímanum í vitleysu, en það er farið að skila sér í betri árangri þeirra. Samt er þetta alltaf jafnerfitt.

Af skákinni er fátt að frétta. Tefldi fjöltefli í dag og vann alla eins og venjulega.
VÖRÐURINN VOTI

Hrannar Baldursson
(Október 1992 – Febrúar 2004)


Undir hvítum skýjum
í skínandi herklæðum

bíður hann

undan hvössum ströndum
sverð hans er ljósrák

Sigling mín er fegruð
með litum af hafsbotni

blik sem aldrei sjást

föstudagur, febrúar 13, 2004

EINMANA

eftir Hrannar Baldursson (Skrifað um 1990)

Það er dimmt og hljótt
ég sé hvorki né heyri
í speglinum er myrkur
við minninguna leikur
skuggi

LIFI?

eftir Hrannar Baldursson (Skrifað um 1990)

Hamingjan ræðst með hártogunum á reiðina. Jörðin hóstar. Pylsa liggur brennd á rauðum teinum. Stúlka með langa lokka og barnsins bros hlær. Skugginn dregur mann á eftir sér.
Sólin dettur inn í sjóndeildarhringinn. Dauðinn reynir að líkjast mér. Sanna þessar setningar að ég lifi?

fimmtudagur, febrúar 12, 2004

Í TÓMI

eftir Hrannar Baldursson (Skrifað um 1990)


Ég tróð mér inn um gatið
á grindverkinu og datt inn
í eilífðina þar sem ég náði
engri fót, hand eða kjölfestu
en vindur greip mig
og heldur mér svífandi
í tóminu

GREIÐSLA

eftir Hrannar Baldursson (Skrifað um 1990)


Vindurinn heilsar upp á flöktandi hár
fléttar sársaukaflækju
rífur upp svörð
greiðir yfir skalla

Gel dansar skallaballett
daðrar við snjókorn
gefur lífinu gljáa
hamingju hársins

FANGI TÍMANS

eftir Hrannar Baldursson (Skrifað um 1990)


Umkringdur,
hann vill lifa
og varðveita
vonarkorn
í gullöskju.

Með vota vanga
hefst lesturinn.


miðvikudagur, febrúar 11, 2004

DÖGG

eftir Hrannar Baldursson (Skrifað um 1990)


Í litlum dropa er alheimur
í litlum alheimi er stjörnuþoka
í lítilli stjörnuþoku er sólkerfi
í litlu sólkerfi er jörð
á lítilli jörð eru lönd
í litlu landi er hús
í litlu húsi er skápur
í litlum skáp er skúffa
í lítilli skúffa er sokkur
í gömlum sokki er lykt
í gamallri lykt er minning
í gamallri minningu er sigur
í gömlum sigri er drengur
í ungum dreng er hugur
í ungum hug er sál
í eilífri sál erum við
í daggardropa


REFSKÁKAÐ GEGN MÉR Í PUEBLA

Ég hef náð að vinna töluvert af mótum hér í Puebla í Mexíkó, frá því að ég flutti hingað fyrir rúmu ári. Náði ég titlinum Skákmeistari Puebla í fyrra.

Nú var verið að boða til þátttöku á Opið Meistaramót Puebla 2004 og tekið fram að:

1. Aðeins mexíkóskir ríkisborgarar hafa þátttökurétt.
2. Til að fá að taka þátt verður keppandi annað hvort að vera fæddur í Puebla eða hafa búið í Puebla síðastliðin tvö ár.

Þetta er frekar merkilegt, þar sem að ég var eini útlendingurinn á síðasta ári í þeim þremur meistaramótum sem ég tók þátt í.

Það er ekki bara á Íslandi sem tefld er refskák!

þriðjudagur, febrúar 10, 2004

Botnlaust

eftir Hrannar Baldursson (Skrifað um 1990)


Þungur hugur leitar stuðnings
þoka liggur yfir hugarins ból
drýpur úr sálinni: tár eða blóð?

Þokuhulan víkur undan fingrum sem fálma
Ekki veit ég hvort að nokkur hafi gaman að þessum ljóðum, en það hefur komið mér nokkuð á óvart hversu myrk þau eru. Ég man satt best að segja lítið eftir þessum ljóðum, en finnst spennandi að skoða þau.

mánudagur, febrúar 09, 2004

SVIKIN LOFORÐ

eftir Hrannar Baldursson
(skrifað um 1990)


Samband rifið eins og neglur af fingrum
án orða rak hún nagla gegnum lófa
hold mitt af beinum hrundi
en hún af ánægju stundi
og gleymdi mér
hún: í faðmi
annars

TRYLLT BALL

eftir Hrannar Baldursson
(um 1990)


Við fjúkum inn
á fægðum skóm
stígum dans
í flaumi nætur
en sökkvum
í leðju
stjörnuþjala

AUGA FJALLSINS

eftir Hrannar Baldursson (Skrifað um 1990)


Sit á fjallstindi
skima yfir mergðina
sem örmagna örn

sunnudagur, febrúar 08, 2004

AF SLÉTTUM AFRÍKU

eftir Hrannar Baldursson
(skrifað um 1990)


Bugðan við fljótið
og barmur þinn

öskrandi ljón
og blikið
í þessum augum

eins og ljósmynd
af sléttum Afríku

Ég er að spá í að grafa upp eitt gamalt ljóð eftir mig á hverjum degi og birta á blogginu, svo að ég geti byrjað að safna þessu saman. Ég ætla þó að birta a.m.k. tvö í dag.
HÆKJA
eftir Hrannar Baldursson (2003)

Sólin svo björt að
börn seilast eftir henni
í sjávaröldum

fimmtudagur, febrúar 05, 2004

Gaman að fá smá viðbrögð við blogginu. Nú ætla ég að svara þessum spurningum:

Gaman að lesa síðuna þína.

"Hvernig geturðu horft á svona margar myndir?" Ja, konan mín er í doktorsnámi í Mexíkóborg og eftir vinnu á kvöldin sest ég niður og glápi á kvikmynd. Þar að auki var bíóvika í skólanum og ég sýndi nemendunum bíómyndir á ensku, með enskum texta. Ef það er eitthvað sem mér finnst virkilega skemmtilegt, þá er það að horfa á kvikmyndir og svo skrifa um þær.

"Hvernig fór skákmótið?" Furðulegt að ég skuli ekki hafa minnst á þetta eins og ég lofaði. En ég vann skákmótið frekar létt. Fékk 4.5 vinninga af 5 mögulegum, en þáði jafntefli í síðustu skákinni þar sem andstæðingurinn bauð og ég hafði aðeins verri stöðu.

mánudagur, febrúar 02, 2004

Búinn að bæta við tveimur greinum á bíósíðuna mína, Robocop (1987) og Paycheck (2003).

sunnudagur, febrúar 01, 2004

Í dag fór fjölskyldan í fjölleikahús. Þar voru samankomnir fjórir dansandi fílar, úlfaldar, lamadýr og smáhestur, auk loftfimleikara og trúða. Alveg eins og fjölleikahús eiga að vera. Mér þótti þetta þó ekkert gífurlega skemmtilegt, þurftum að sitja á hálfgerðum plönkum með þunnum púðum og fór að verkja eftir tveggja tíma setu. Hins vegar höfðu börnin mjög gaman að.

Sérstaklega var gaman að einu atriðinu, sem kallað var: "Triple salto de muerte" eða "þrístökk dauðans". Nú tók einn loftfimleikamaðurinn sig til og rólaði fram og til baka þar til hann stökk. Og hvað haldiði, ég taldi tvo hringi og Angeles taldi eins. Samt klappaði fullt af fólki og náunginn þóttist vera voðalega klár. Stundum er gott að kunna ekki að telja held ég bara. Samt má maður ekki missa af íróníunni í þessu öllu saman, en ég er bara ekki alveg viss um hver hún er.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Weblog Commenting by HaloScan.com